Sagan

Stiklað á stóru í sögu Steypustöðvarinnar ehf

Fyrirtækið Steypustöðin ehf á sér 60 ára langa rekstrarögu, sem hófst á stofnfundinum þann 19. janúar árið 1947, þegar Steypustöðin hf. var stofnuð í því skyni að ryðja braut á nýrri tækni við steinsteypu á Íslandi. Steypustöðin var staðsett við Elliðaár og voru aðalhluthafar Orka hf., H. Benediktsson & co og Bæjarsjóður Reykjavíkur. Stofnandi var Sveinn B. Valfells en fyrsti framkvæmdastjóri var Jóhannes Bjarnason verkfræðingur og vann hann ötullega við að koma stöðinni á laggirnar og kynnti sér starfsemi slíkra stöðva erlendis.

Strax frá upphafi notaði fyrirtækið tunnubíla sem hrærðu steypuna á leið frá steypustöðinni að notkunarstaðnum. Notaðir voru svokallaðir gálgabílar ef hífa þurfti steypuna upp því ekki fylgdi lyfta. Þá var efnið flutt á vörubílum að gálgabílnum og síðan hrærði hann steypuna. Unnt var að hífa steypuna í talsverða hæð á þessum gálgabílum. Með tilkomu Steypustöðvarinnar hf. varð mögulegt að blanda steypuna langt frá notkunarstað, en slíkt var algjör nýjung.

Þótt steinsteypa hafi verið notuð frá tímum Rómverja hinna fornu, settu þekkingarleysi og skortur á því byggingarefni sem mest var notað í Evrópu svip á húsagerð Íslendinga um aldir. Torf og grjót voru lengi helstu húsbyggingaefnin, en slík efni voru yfirleitt ekki endingargóð. Afleiðing þessa er sú að elstu hús landsins geta vart talist gömul. Hráefni í steinsteypu voru hins vegar til í landinu og þegar farið var að nota steypu til húsagerðar tóku Íslendingar henni tveim höndum.

Íslendingar kynntust fyrst steinsteypu árið 1847 þegar hún var notuð í endurbætur á Dómkirkjunni í Reykjavík. Steinsteypunotkun jókst síðan, en fyrsta tilraun til að byggja steinhús á Íslandi var gerð seint á 19. öld. Steinsteypuöldin á Íslandi hófst með byggingu hússins að Sveinatungu í Borgarfirði, sem byggt var árið 1895. Eftir það jókst notkun steinsteypu, en vinnubrögðin við steypuna voru framan af frumstæð. Steypan var handhrærð og síðan hífð upp í fötum með handafli. Steypuhrærivél var fyrst notuð 1914 þá var reistur lyftiturn og steypan dregin upp af hreyfli. Fram undir miðja 20. öld mokuðu menn þó möl og sandi í hjólbörur og óku þeim að hrærivélinni.

Einungis þremur árum eftir að Steypustöðin hf. hóf störf, eða árið 1950, var svo komið að helmingur allra íbúðarhúsa í landinu voru steinhús. Þróunin hefur síðan haldið áfram enda hefur íbúafjöldi margfaldast, þéttbýlisstaðir þanist út og yfirgnæfandi meirihluti íslenskra húsa sem byggð hafa verið eftir seinni heimsstyrjöld eru steinsteypt. Kröfur um gæði íbúðarhúsnæðis hafa í áranna rás aukist gríðarlega og steinsteypt hús hafa síðustu áratugina verið svo til einráð, enda er steinsteypa endingargott byggingarefni og hráefnin innlend.

Frá 1955 rak Steypustöðin eigin efnisnámu að Esjubergi þar sem framleitt var óalkalívirkt steypuefni, en frá upphafi hafði stöðin kerfisbundið eftirlit með framleiðslu sinni. Á rannsóknarstofu stöðvarinnar hafa byggingaverkfræðingar, tæknifræðingar og aðstoðarmenn unnið að mikilvægum rannsóknum, auk þess sem stöðin gerði snemma samning við Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins um óháð eftirlit með framleiðslunni. Niðurstöður rannsókna Steypustöðvarinnar hafa verið kynntar á ráðstefnum byggingaverkfræðinga erlendis.

Árið 1964 hafði tækninni fleygt fram og Steypustöðin hf. festi kaup á tölvustýrðri steypustöð frá Svíþjóð. Stöðin var afar fullkomin og fullnægði ströngustu kröfum tímans. Framleiðslugetan var 150 rúmmetrar af steypu á klukkustund. Hún var sett upp á lóð Steypustöðvarinnar við Ártúnshöfða við Elliðaárvog. Byggður var 22ja metra hár stöðvarturn en efst í honum voru efnisgeymar með mismunandi sementstegundum. Undir turninum voru færibönd sem fluttu efnin upp. Öll framleiðsla í stöðinni var hreinleg og rykfrí þar sem meðhöndlun sements var lokuð.
Einnig gerði hinn fullkomni búnaður það mögulegt að skila steypunni 20 gráðu heitri á byggingastað þannig að hægt var að halda framkvæmdum áfram við flest veðurskilyrði og frostveður tafði ekki steypuframkvæmdir.

Á 7. áratugnum varð vart við alkalískemmdir í steinsteyptum húsum. Varaði Steypustöðin hf. við slíkum skemmdum í heilsíðuauglýsingu í Morgunblaðinu þann 3. júlí árið 1967. Þar voru húsbyggjendur hvattir til að vanda val á byggingarefnum og nota ekki alkalívirk efni. Því miður hlýddu ekki allir þeim ráðum og eru alkalískemmdir töluvert útbreiddar í húsum frá þessu tímabili.
Árið 1971 tók dótturfyrirtækið Steypustöð Suðurlands til starfa á Selfossi. Þar í bæ var steypustöðin sem kom til landsins sett upp árið 1947 og var hún í notkun allt til 2004 þegar ný stöð tók til starfa á Selfossi.

Í október 1977 keypti fyrirtækið Steinvegur ehf., sem Steypustöðin hf. átti ásamt þremur öðrum fyrirtækjum, vél sem gat steypt allt að 10 metra breiðan vegarkafla. Vélin var aðeins fjórar klukkustundir að leggja kílómeterslangan kafla. Vélin var notuð við vegagerð á Höfuðborgarsvæðinu, meðal annars við lagningu Vesturlandsvegar.

Árið 1994 var Steinsteypan hf. stofnuð í Hafnarfirði og var afkastageta hennar 50 rúmmetrar á klukkustund. Á þeim tíma var árleg steypuframleiðsla á Höfuðborgarsvæðinu 120.000 rúmmetrar. Í júní 1995 færði Steypustöðin hf. síðan enn út kvíarnar og jók framleiðslugetuna til muna þegar keypt var stöð sem Landsvirkjun hafði notað við byggingu Blöndu- og Hrauneyjarfossvirkjana.

Allt til dagsins í dag hafa þau fyrirtæki sem hér hafa verið nefnd verið leiðandi í sölu og þjónustu á steinsteypu og öll hafa þau kappkostað vönduð vinnubrögð og góða þjónustu. Framleiddir hafa verið yfir 3 milljónir rúmmetra frá upphafi og fyrirtækin átt mikinn og góðan þátt í þróun vandaðra bygginga og mannvirkja á Íslandi frá því um miðja síðustu öld.

Síðasta áratuginn hafa orðið miklar breytingar samhliða þróun byggingamarkaðarins. Árið 2003 sameinuðust þrjú fyrirtæki sem störfuðu á byggingamarkaði Steypustöðinni. Þetta voru Steinsteypan ehf., Steypustöð Suðurlands hf. og Vinnuvélar hf. Höfuðstöðvar fyrirtækisins voru í Reykjavík en afgreiðslur reknar á Selfossi og í Hafnarfirði. Árið 2003 var helluverksmiðja gangsett í Hafnafirði og einnig ný steypustöð og ári síðar var opnuð ný múrverslun fyrir fagmenn að Malarhöfða 10. Þegar uppsteypa á álveri Alcoa á Reyðarfirði hófst árið 2005 voru tvær steypustöðvar settar upp þar fyrir austan.

Árið 2006 sameinaðist fyritækið Merkúr hf. Steypustöðinni ehf. undir nafninu MEST, sama ár sameinaðist byggingaverslunin Súperbygg fyrirtækinu og Pallaleigan Stoð ehf. árið 2007. Þann 9. mars var opnuð ný verslun og sölusetur MEST við Norðlingabraut 9, fyrirtækið Timbur og Stál ehf. sameinast MEST í aprílmánuði sama ár og nýtt vöruhús MEST við Fornubúðir 5 var tekið í notkun í júní mánuði.


To Top

Áfangar í sögu Steypustöðvarinnar

  • 1947: 19. janúar, stofnfundur Steypustöðvarinnar hf. haldinn í Reykjavík.
  • 1947: Húsið að Vallargerði 2 í Kópavogi steypt um haustið og er það fyrsta hús á landinu sem steypt er með steypu frá Steypustöðinni hf.
  • 1955: Steypustöðin hf. hefur rekstur eigin efnisnámu að Esjubergi á Kjalarnesi þar sem framleitt er óalkalívirkt   steypuefni.
  • 1964: Steypustöðin hf. kaupir fullkomna, tölvustýrða steypustöð frá Svíþjóð, sem sett er upp við Elliðaár.
  • 1967: Í heilsíðuauglýsingu frá Steypustöðinni hf. í Morgunblaðinu er varað við alkalískemmdum og húsbyggendur hvattir til velja byggingarefni af kostgæfni.
  • 1971: Dótturfyrirtækið Steypustöð Suðurlands tekur til starfa á Selfossi.
  • 1977: Fyrirtækið Steinvegur ehf., sem m.a. er í eigu Steypustöðvarinnar hf., kaupir öfluga vél til vegalagninga.
  • 1987: Steypustöðin hf. fagnar 40 ára rekstrarafmæli. Forstjórar eru Sveinn Valfells og Halldór Jónsson.
  • 1992: Rannsóknir Steypustöðvarinnar hf. kynntar á ráðstefnu við Wisconsinháskóla í Bandaríkjunum.
  • 1994: Steinsteypan hf. stofnuð í Hafnarfirði.
  • 1995: Steypustöðin hf. kaupir steypustöð af Landsvirkjun.
  • 2000: Steypustöðin hf. tekur þátt í byggingu Smáralindar.
  • 2003: Steypustöðin hf. sameinast Steinsteypunni, Steypustöð Suðurlands og Vinnuvélum.
  • 2003: Helluverksmiðja formlega gangsett í Hafnarfirði.
  • 2004: Opnun múrverslunar fyrir fagmenn um vorið að Malarhöfða 10.
  • 2005: Uppsteypa á álveri Alcoa á Reyðarfirði hefst og samhliða settar upp tvær steypustöðvar á Reyðarfirði.
  • 2006: Merkúr hf. sameinast Steypustöðinni ehf. undir nafninu MEST.
  • 2006: Súperbygg ehf. sameinast MEST um haustið.
  • 2007: Pallaleigan Stoð ehf. sameinast MEST í febrúarmánuði.
  • 2007: Opnun á nýrri verslun og sölusetri við Norðlingabraut 12 þann 9.mars.
  • 2007 : Timbur og Stál ehf. sameinast MEST í apríl mánuði.
  • 2007 : Nýtt vöruhús MEST við Fornubúðir 5 tekið í notkun í júní mánuði.


To Top

Nokkur mannvirki sem steypt hafa verið með steypu frá Steypustöðinni hf.

  • Höfnin í Grímsey
  • Kópavogsbrúin (1959)
  • Vesturlandsvegur
  • Seðlabankinn (1986)
  • Þjóðarbókhlaðan (1974-1994)
  • Flugskýlið á Akureyri (1966)
  • Háskólabíó (1961)
  • Kjarvalsstaðir (1966-1973)
  • Smáralind (2000)
  • Arnarnesbrú (2008) ??


To Top